Listamennirnir

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi er einn framsæknasti og fjölhæfasti sviðslistamaður þjóðarinna um þessar mundir. Í stað þess að afmarka sig við einn stíl, eina tegund af sviðslist, þá þrífst hann á sífelldum tilraunum þar sem leikið er á öll skilningarvit og allan skala mannlegra tilfinninga.

Tryggvi nam leiklist í hinum virta Akademi for Scenekunst í Noregi þar sem kennarar voru meðal annars meðlimir Forced Entertainment, Oklahoma Nature Theatre og Robert Wilson.

Tryggvi er einn af stofnmeðlimum Ósóma þjóðar sem um árabil hefur verið leiðandi í íslenskri nútíma leiklist.

Hilmir Jensson

Hilmir er sömuleiðis einn af prímus mótorum Ósóma þjóðar þar sem hann á að baki á annan tug leiksýninga, Samfara því hefur hann leikið í bæði Þjóð- og Borgarleihúsinu ásamt því að sinna rannsóknum í sviðslistum.

Hann hefur um langt skeið kennt ungum leikurum í Listaháskóla Íslands við framúrskarandi orðstýr.

Sólveig Guðmundsdóttir

Sólveig er oft kölluð drottning sjálfstæðu senunnar. Hún hefur leikið í fjölmörgum sýningum með hinum ýmsu hópum. Hún hlaut mikið lof fyrir bæði skrif sín og leik í Sóley Rós, en fyrir frammistöðu sína hlaut hún Grímuverðlaun fyrir hvoru tveggja. Hún fékk svo aftur sömu verðlaun fyrir Rejúníon.

Sólveig iðkar um þessar mundir list sína í Borgarleikhúsinu.

Hannes Óli Ágústsson

Hannes er löngu orðinn þjóðkunnugur fyrir frammistöðu sína bæði á sviði og á hvíta tjaldinu. Gildir þá engu hvort um stóru leikhúsin er að ræða, sýningar Ósóma þjóðar, Skaupið eða Hollywood, hann er jafnvígur á nær alla sviðslist.

Hannes gegndi einnig stöðu fagstjóra sviðslistabrautar við Listaháskóla Íslands um árabil en hefur nú snúið sér aftur alfarið að listinni.

Valdimar Jóhannsson

Valdimar semur hér tónlist fyrir verk Tryggva í þriðja sinn. Fyrst fyrir svið í SOL, svo fyrir kvikmyndina Mara og nú loks fyrir hljóðverkið ‘Þekktur hlutur á pokasvæði sálar minnar. Það er ekkert sem Valdimar getur ekki tileinkað sér, enda hefur hann unnið á nær öllum sviðum sviðslistar.

Fókus hans er nú á kvikmyndir eftir að hann vann með Mathew Barney og Íslenska dansflokknum að sýningu þeirra Fórn og í kjölfarið verki Ósóma þjóðar Mara.

Ekki er hægt að tala um Valdimar án þess að minnast á hliðarsjálf hans, Kæsta Safírinn, sem öllu sviðslistafólki er góðu kunnur.